Sjávarútvegsráðuneytið í Indónesíu hefur úthlutað sem svarar 65 milljónum krónum íslenskum til að styðja framleiðslu á möðkum sem fóður í fiskeldi. Maðkarnir eiga að koma í staðinn fyrir fiskimjöl sem keypt er dýrum dómi frá Chile.
Ráðuneytið áformar að byggð verði um 4 þúsund lítil maðkabýli á eynni Sumatra og á Kalimantan. Þessir staðir henta vel vegna þess að þar er fjöldi plantekra með pálmatrjám. Heppilegt er að nota aukaafurðir sem verða til við vinnslu á pálmaolíu við maðkaræktina.
Indónesar segja að verð á fiskimjöli sé nú orðið svo hátt að það standi frekari vexti í fiskeldi fyrir þrifum. Talið er að maðkarnir geti lækkað fóðurkostnað í fiskeldi um 50%.