Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur birt veiðiráðgjöf sína fyrir næsta ár í þremur mikilvægum uppsjávartegundum í NA-Atlantshafi sem nýttar eru sameiginlega af mörgum þjóðum, það er að segja norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna.
Lagður er til kvótasamdráttur í öllum tegundunum, þó sýnu mestur í norsk-íslenskri síld. Ráðlagt er að hámarksaflinn síldarinnar fari ekki yfir 238.000 tonn á næsta ári en veiðiráðgjöfin fyrir yfirstandandi ár var rúmlega 418.000 tonn. Ekki náðist samkomulag um hámarksafla norsk-íslensku síldarinnar í ár vegna þess að Færeyingar stóðu hjá og ákváðu eigin kvóta.
ICES ráðleggur að makrílaflinn á næsta ári verði á bilinu 831-906 þúsund tonn, en ráðlegging ráðsins fyrir yfirstandandi ár var 927-1.011 þúsund tonn. Sem kunnugt er náðist ekki samkomulag milli þjóðanna og því fer aflinn langt fram úr ráðgjöfinni í ár.
Loks er að nefna kolmunnann en ICES leggur til 840.000 tonna hámarksafla fyrir næsta ár. Ráðgjöfin fyrir yfirstandandi ár var 949.000 tonn en kvótinn var ákveðinn 1.200.000 tonn.