Bretar eru mjög stoltir af þjóðarrétti sínum, fish&chips. Neysluvenjur Breta á þessum rétti hafa verið kannaðar í þaula. Nýleg athugun leiðir til dæmis í ljós að íbúar í Belfast borða hlutfallslega mest af fish&chips.

Um 87% Breta kaupa fish&chips á stöðum þar sem menn taka réttinn með sér. Um 46% þeirra Lundúnarbúa sem leggja sér fish&chips til munns vilja borða réttinn af matardiskum en 38% vilja borða hann beint af blaði eða úr pappaboxi. Vinsælasta meðlætið, fyrir utan salt og edik, er grænbaunajafningur en þar á eftir kemur karrýsósa.

Í könnuninni, sem var mjög viðamikil, voru neysluvenjur Breta á fish&chips kannaðar frá öllum hliðum. Hver borg hefur sín sérkenni. Í Belfast borða 54% íbúa fish&chips að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Í Birmingham er karrýsósa höfð í hávegum sem meðlæti. Manchesterbúar eru sólgnastir í grænbaunajafninginn og þeir sem búa í Newcastle steyta réttinn oftast úr hnefa!

Neysla Breta á fish&chips er auðvitað mikið alvörumál. Í Bretlandi eru 10.500 fish&chips-staðir og þeir selja um 380 milljónir rétta á ári. Um 75 þúsund Bretar vinna hjá fish&chips stöðum. Bretar kaupa réttinn fyrir tæpa 2 milljarða dollara á ári sem samsvarar um 238 milljörðum íslenskra króna.