Íslendingar taka þátt í verkefni við vöruþróun sem miðar að því að fullnýta aukahráefni um borð í norska línuskipinu Frøyanes sem er stærsta línuskip heims, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Frøyanes er 60 metra langt og um 2.330 brúttótonn. Skipið er útbúið til að fullnýta fiskinn sem mest um borð. Í skipinu er meðal annars niðursuðuverksmiðja þar sem lifur er soðin niður í dósir. Nú hefur nýju rannsóknaverkefni verið hleypt af stokkunum til að auka og bæta nýtingu á aukahráefnum um borð sem falla til við bolfiskveiðar.

Stærsti línubátur í heimi.
Stærsti línubátur í heimi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þetta er samvinnuverkefni Noregs og Íslands. Þátttakendur eru MATÍS á Íslandi, Møreforsking í Álasundi, sem er svipað fyrirtæki og MATÍS, og útgerð skipsins, Ervik Havfiske, sem sér um verkefnisstjórn.  Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri hjá MATÍS, er fulltrúi Íslands í þessu verkefni Ásbjörn fór nýlega í einn róður með Frøyanes ásamt norsku kollegunum þar sem unnið var að ýmsum tilraunum og vöruþróun.

„Markmið okkar var að reyna að auka nýtinguna með því að vinna úr öðrum aukahráefnum, svo sem hrognum, sviljum, gellum og skötubörðum. Við gerðum margs konar tilraunir með því að blanda saman lifur og hrognum, hrognum og sviljum og bjuggum til paté. Prófaðar voru margskonar bragðtegundir og krydd. Þá suðum við gellur niður og krydduðum með hvítlauk og fersku chili. Slíkir réttir slógu reyndar í gegn; gellurnar voru alger sælkeramatur,“ sagði Ásbjörn.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.