Nýtt fyrirtæki í eigu Egils Árnasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Katla Seafood á Kanaríeyjum sem var í eigu Samherja, hefur keypt 120 metra langan verksmiðjutogara sem gerður verður út á uppsjávarveiðar úti fyrir ströndum Máritaníu.
Greint er frá þessu á sjávarútvegsvefnum www.undercurrentnews.com .
Fyrirtækið heitir Saga Seafood og er í eigu Egils og fleiri aðila. Það keypti togarann Blue Wave í júní sl. af íslenska fjárfestingasjóðsins Thule Investments. Skipið hefur nú fengið nafnið Saga.
Vefurinn hefur það eftir Agli að skipið hefur heimildir til að stunda veiðar í lögsögu Máritaníu Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en Undercurrent hefur heimildir fyrir því að það liggi á bilinu 28-30 milljónir dollara, 3,3-3,6 milljarðar króna með skuldayfirtöku.
Í samtali við Undercurrent tjáir Egill sig ekki þessar tölur en staðfestir að Landsbankinn taki þátt í fjármögnuninni.
Hann vildi ekki heldur tjá sig um þær aflaheimildir sem fylgja skipinu en tegundir sem þarna veiðast eru aðallega sardína, sardínella, makríll og hrossastirtla og fer allur aflinn til manneldis í Afríku.
Egill Árnason starfaði um árabil hjá Katla Seafood en hætti þar störfum þegar Samherji seldi fyrirtækið til Murmansk Trawl Fleet.