Oddur Halldórsson, skipstjóri hjá Faxaflóahöfnum, var í hópi 7 annarra Íslendinga sem sigldu færeyska kútternum Westward Ho TN 57 úr Reykjavíkurhöfn til Þórshafnar í Færeyjum í júní síðastliðnum.

Skútan hreppti aftakaveður á Faxaflóa þar sem skyndilega skall á með suðvestan 35 metrum á sekúndum og fimm metra ölduhæð. Það tók áhöfnina heilan sólarhring að komast fyrir Reykjanesið og leist mönnum ekkert sérstaklega vel á blikuna um tíma.

Lagt var af stað frá Reykjavík snemma mánudagsmorguns 8. júní sl. Út af Garðskaga gerði vitlaust veður og þar stóðu menn í talsverðum barningi í heilan sólarhring. Haldinn var sjór og fremstu seglin voru tekin niður. Við Garðskaga var ölduhæð yfir 5 metrar og vindhraðinn fór í 35 metra á sekúndu.

Veltingurinn var mikill og stundum snöggar hreyfingar á skútunni og urðu menn á dekki alltaf að hafa fast hald með annarri hendinni. Nálægt Westward Ho voru íslenskir togarar sem keyrðu varla á hálfri ferð upp í veðrið. Oddur segir að vest-suðvestan aldan nái í rauninni alla leið frá Mexíkóflóa til Íslands og verði alltaf stærst á Faxaflóa og út af honum.

Sjá nánar í Fiskifréttum í dag.