Fimm ára áætlun kínverskra yfirvalda, fyrir árin 2025 til 2030 og er sú fimmtánda í röðinni, gerir ráð fyrir að í landinu verði framleiddar 69 milljónir tonna af sjávarfangi. Það er milljónum tonna umfram áætlaða framleiðslu á svínakjöti sem er þó jafnan talin mikilvægasta uppspretta á próteins í landinu.

Fimm ára áætlanir kínverskra yfirvalda þykja gefa vísbendingar um hvar áherslur þeirra til framtíðar liggja í einstökum málaflokkum. Umrædd fimm ára áætlun, sem nú er í smíðum, setur þetta metnaðarfulla markmið enda viðbótin veruleg frá því sem nú er, að því er kemur fram í Seafood Source.

Framleiðsla Kínverja á sjávarfangi hvers konar jókst úr 64,5 milljónum tonna árið 2017 í 65,4 milljónir tonna árið 2020. Árið 2021 er framleiðslan um 65,7 milljónir tonna og er áætluð 66,1 milljón tonna í ár, að því er kemur fram hjá ráðgjafastofnuninni Zhong Shang Chan Ye með höfuðstöðvar í borginni Shenzhen, og Seafood Source fjallar um.

Í nefndri fimm ára áætlun er gert ráð fyrir framleiðslu á 55 milljónum tonna af svínakjöti, sem er Kínverjum afar mikilvægt hráefni. Að framleiða skuli meira af sjávarfangi en svínakjöti er talið hafa táknræna merkingu fyrir áherslur yfirvalda um mataræði þarlendra.

Heima og að heiman

Þessum markmiðum sínum ætla yfirvöld í Kína að ná með uppbyggingu í sjávarútvegi og eldi heima fyrir sem og fjarri eigin ströndum. Í byrjun árs var kallað eftir því að fjárfesting í sjávarútvegi utan landsteinanna yrði stórlega aukin, eða í fiskihöfnum, útgerð og fiskvinnslum sem reistar eru fyrir kínverskt fjármagn í Vestur-Afríku, Suður-Ameríku og Eyjaálfu.

Í sama skjali er jafnframt kallað eftir mun strangari umhverfisreglum varðandi eldi í Kína, sama hvort þar er alinn fiskur eða annað sjávarfang. Það er stórt skref þar sem eldi sjávarfangs í Kína er gríðarlegt að vöxtum og teygir sig vítt og breitt um þetta stóra land, bæði í fersku vatni og sjó.