Þýðing norsks sjávarútvegs er gríðarlega mikil fyrir norskt efnahags- og atvinnulíf samkvæmt nýjum útreikningum á margeldisáhrifum greinarinnar, að því er fram kemur á vefnum fiskerforum.dk.
Verðmætasköpun norsks sjávarútvegs, þ.e. framlag til vergrar landsframleiðslu, var 40 milljarðar NOK á árinu 2009 (855 milljarðar ISK). Verðmætasköpun í kjarnastarfseminni, svo sem veiðum, fiskeldi, fiskvinnslu o.s.frv., nam um 20 milljörðum. Það þýðir að hver króna í sjávarútvegi skapaði aðra krónu annars staðar í efnahagslífinu. Í heild voru 46 þúsund ársverk í sjávarútvegi og afleiddum greinum, þar af 24 þúsund í kjarnastarfseminni en 22 þúsund í öðrum greinum í norsku atvinnulífi.
Þýðing greinarinnar mæld í framleiðsluverðmæti er einnig mjög mikil. Í heild nam framleiðsluverðmætið 131 milljarði NOK (2.803 milljörðum ISK), þar af voru 80 milljarðar í kjarnastarfsemi en 51 milljarður í afleiddri starfsemi.