Hvanney SF frá Hornafirði gerði það gott í nýliðnum mánuði og fékk 530 tonn í dragnótina í maímánuði, þar af 129 tonn í aðeins þremur róðrum.Hæsti einstaki róðurinn gaf 54 tonn. Þetta kemur fram á vefnum Aflafrettir.is
Þar er vakin athygli á því að þótt þorskur sé út um allt og flestir kvarti undan því að erfitt sé að sniðganga hann var sá guli aðeins 80 tonn af þessum 530 tonna afla. Ýsa var 179 tonn, steinbítur 126 tonn og skarkoli 124 tonn.
Á vefnum er haft eftir Þorsteini Guðmundssyni skipstjóra á Hvanney SF að þeir hafi að mestu verið að veiðum við Hrolllaugseyjar og stóri túrinn sem var 54 tonn fékkst á Lónsbugtinni og við Papey. Steinbíturinn var ansi góður því meðalvigtinn var um 3 kíló og þar yfir.
Mikill steinbítur var þar á ferðinni og sagði Þorsteinn að þeir hefðu getað tekið nokkra fullfermistúra þangað hefði kvótastaðan hefði leyft það. Þorsteinn sagði að báturinn hefði undir lokin landað á tveggja daga fresti en þeir hefðu þá fengið 42 tonn eftir einn dag á veiðum. Línubátarnir sem eru komnir margir austur hafa ekki fengið mikið af steinbítnum miðað við það sem þeir á Hvanney SF og Geir ÞH mokuðu upp.
Hvanney SF er eini stóri dragnótabáturinn sem var á þessu svæði en Geir ÞH kom þangað og fékk 31 tonn af steinbíti á sömu slóðum.
Sjá nánar á aflafrettir.is