Steinar Bastesen, fyrrverandi þingmaður í Noregi og stofnandi Kystpartiet, Strandflokksins, er látinn. Frá þessu greinar norskir miðlar.
Steinar Bastesen var vel þekktur á sínum tíma á Íslandi sem hvalveiðimaður með meiru og sem stjórnmálamaður.
Norskir fjölmiðlar hafa eftir syni Steinars að hann hafi fallið í bátahöfnina í Brønnøysund fyrir hádegi á sunnudaginn og látist. Lögregla segir að reynt hafi verið að lífga hann við en án árangurs. Hann varð 78 ára.
Steinar Bastsen sat á Stórþinginu í Noregi á tveimur tímabilum á árunum 1997 til 2005.
Vildi en fékk ekki að veiða túnfisk
Sem fyrr segir var Steinar Bastesen vel kunnur á Íslandi vegna aðkomu sinnar að sjávarútvegsmálum. Í Fiskifréttum í júlí 1998 sagði til dæmis frá því að Steinar vildi fá leyfi til túnfiskveiða í lögsögu heimalands síns.
„Norski hvalfangarinn og þingmaðurinn Steinar Bastesen, sem er Íslendingum að góðu kunnur fyrir að reyna að selja hingað hvalspik án árangurs, hefur aftur fengið afsvar frá norskum stjórnvöldum, - nú við beiðni um að fá að gera tilraun til að veiða túnfisk á línu í lögsögu Noregs. Neitunin er byggð á því að stjórn veiða á túnfiski sé í höndum Alþjóðatúnfiskráðsins ,“ sagði í Fiskifréttum þann 24. júlí 1998.
„Noregur á ekki aðild að ráðinu en er skuldbundinn til þess að eiga samvinnu við það, að því er segir í Fiskeribladet. Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum er mikill áhugi á að láta kanna hvort túnfiskur finnist við Noreg og er þar vísað til árangursríkra tilraunaveiða á túnfiski í íslenskri og færeyskri lögsögu á undanförnum árum. Norsk stjórnvöld hafa nú til athugunar tvær beiðnir frá norskum rannsóknaaðilum um tilraunaveiðar í samvinnu við japanskar útgerðir. Túnfiskur gekk upp að ströndum Noregs á árum áður og hámarki náðu veiðarnar árið 1954 þegar 12.000 tonn af túnfiski fengust þar. Á árinu 1986 hvarf túnfiskur af norskum aflaskýrslum og hefur ekki sést síðan,“ sagði í fréttinni í Fiskifréttum.
Tæpu ári síðar voru Íslendingar í radarnum hjá Steinari. Frá þessu sagði í Fiskifréttum þann 4. júní 1999 undir fyrirsögninni: Ótrúlegur hroki Íslendinga - segir Steinar Bastesen.
Ótrúlegur hroki Íslendinga
„Íslendingar sýna ótrúlegan hroka með því að auka rækjuveiðar sínar í Smugunni á sama tíma og samningurinn um lausn Smugudeilunnar er til umfjöllunar í Stórþinginu í Osló,“ segir Steinar Bastesen þingmaður í samtali við norska blaðið Fiskaren í þessari viku,“ sagði í fréttinni og virðist sem vík sé komin milli vina.
„Bastesen hefur hingað til fiokkast sem „Íslandsvinur“ enda bandamaður okkar í hvalveiðimálum, en í þessu máli er hann andsnúinn Íslendingum. Fleiri þingmenn á norska þinginu hafa talað gegn samningnum og m.a. bent á að samkomulagið sé eingöngu um veiðar á þorski. Aðrar tegundir séu ekki nefndar á nafn og geti Íslendingar sótt í þær eins og þeim sýnist,“ heldur fréttin áfram.
„Ivar Kristiansen, talsmaður Hægri flokksins í fiskveiðimálum segir að rækjuveiðar Íslendinga í Barentshafi leiði í ljós að norskir sjómenn hafi farið halloka í viðureign sinni við Íslendinga. Ísland fái þorskkvóta og fái frjálsar rækjuveiðar í kaupbæti. Það sem nú sé að gerast í Smugunni styrki á engan hátt nýgerðan samning. Þrátt fyrir þessa afstöðu efast enginn um að samningurinn um lausn Smugudeilunnar verði samþykktur á norska þinginu, að sögn Fiskaren,“ sagði áfram í Fiskifréttum þann 4. júní 1999.