Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur úrskurðað að hvalveiðar Japana á suðurheimsskautsvæðinu séu ekki vísindalegar og þær beri að endurskoða. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Japanar veiða um þúsund hvali á ári og halda því fram að veiðarnar séu í vísindalegum tilgangi. Ástralar vísuðu málinu til Alþjóðadómstólsins árið 2010, en þeir sögðu veiðarnar í atvinnuskyni og vísindarannsóknirnar einungis yfirskin.

Úrskurður Alþjóðadómstólsins er bindandi og Japanar hafa lýst því yfir að þeir muni hlíta dómnum. Dómari Alþjóðadómstólsins sagði þegar dómur var upp kveðinn í morgun að Japanar verði að hætta hvalveiðum tímabundið á meðan þær séu endurskoðaðar.