Grænlenska loðnuskipið Erika kom til Neskaupstaðar aðfaranótt sunnudags með 900 tonn af loðnu sem landað var í mjöl- og lýsisvinnslu. Aflinn fékkst bæði í nót og troll en hvalir á miðunum ollu skipverjum miklum erfiðleikum.
Geir Zoëga, skipstjóri á Eriku, lýsir veiðiferðinni svo í samtali á vef Síldarvinnslunna r:
„Í upphafi veiðiferðar fiskuðum við í nótina en eftir að vera búnir að fá 7 hnúfubaka samtals í hana var skipt yfir á trollið. Það var ekki um annað að ræða, enda nótin vægast sagt illa farin. Í einu kastinu lokuðust 5 hvalir inni í nótinni. Þrír þeirra fóru út á meðan á snurpingu stóð og skyldu eftir sig stór göt. Tveir voru hins vegar eftir og rifu pokann afar illa.“
Erika er búin að fá á annan tug hvala í nótina á yfirstandandi loðnuvertíð með tilheyrandi veiðitapi, vandræðum og kostnaði.
Að sögn Geirs eru sjómenn almennt sammála um að aldrei hafi verið jafn mikið um hnúfubaka á loðnumiðunum og nú. Segir hann að oft megi sjá hvali svo tugum og hundruðum skipti og hvalablásturinn minni á víðfeðmt hverasvæði. Telur hann mikilvægt að rannsóknir á hnúfubak verði efldar og bendir á að ennþá sé hnúfubakurinn flokkaður undir dýr í útrýmingarhættu. Segir Geir að til séu „hvalafælur“ sem hengdar séu neðan á nótina. Þeir á Eriku hafi reynt þennan búnað en hann virðist virka lítið.
Loðnuskipið Erika er gert út af East Greenland Codfish AS en Síldarvinnslan er hluthafi í útgerðarfélaginu.