Margir hafa eflaust ekki leitt hugann að því að töluverð fjárfesting býr að baki starfsemi trillukarla. Nýir aðilar þyrftu að leggja í hundruð milljóna fjárfestingu til að kaupa bát og kvóta, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Smábátakerfið hefur tekið svipuðum breytingum og stóra kerfið og nú lætur nærri að 70 til 80% af kvóta í litla kerfinu hafi verið keyptur. En hvað skyldi það kosta að hefja smábátaútgerð í dag? Í Fiskifréttum eru birt þrjú dæmi um stofnkostnað í smábátaútgerð. Í fyrsta dæminu er gert ráð fyrir kaup á notuðum báti og um 70 tonna kvóta. Heildarkostnaður yrði væntanlega um 190 milljónir króna. Í öðru dæminu er um að ræða nýjan 15 tonna bát og 300 tonna kvóta. Fyrir það þyrfti að snara út um 800 milljónum króna. Þriðja dæmið er nýr 30 tonna bátur og 700 tonna kvóti. Til að ráðast í slíka fjárfestingu þyrftu menn að hafa 1,7 milljarða milli handanna!

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.