Svartsýni ríkir meðal grásleppukarla eftir að það spurðist út að upphafsfjöldi veiðidaga á komandi vertíð yrðu aðeins 20. Endanlegur fjöldi daga verður ekki ákveðinn fyrr en í lok mars eða nokkrum dögum eftir að vertíðin hefst. Það er Hafrannsóknastofnun sem tilkynnir þá ráðherra um niðurstöðu úr stofnmælingu úr vorrallinu sem tekur í framhaldinu ákvörðun um leyfilegan fjölda daga. Grásleppukarlar eru afar óánægðir með þessa tilhögun þar sem undirbúningur að vertíðinni tekur nokkra mánuði og ekki kemur í ljós fyrr en vertíð er hafin hvort hún nýtist, segir á vef Landssambands smábátaeigenda.

Landssamband smábátaeigenda hefur bent á að það fyrirkomulag sem verið hefur á veiðum í hálfa öld bendi ekki til þess að þörf sé á frekari takmörkunum en verið hafa.  Engin hætta sé á hruni stofnsins að völdum veiða grásleppukarla sem haf glímt við eftirfarandi takmarkandi þætti á veiðunum:

•           Einungis bátar minni en 15 brúttótonn mega stunda veiðarnar

•           Fjöldi þeirra sem má stunda veiðar er takmarkaður

•           Netafjöldi er takmarkaður

•           Veðurfar á vertíðinni er mjög takmarkandi þáttur t.d. þarf ekki nema eina brælu á háveiðitíma svo veiði detti niður um helming

•           Miðunum er skipt upp í 8 veiðisvæði, en aðeins er hægt að fá veiðileyfi á einu svæði á hverri vertíð

•           Verðsveiflur á hrognunum hafa alltaf verið miklar sem leiðir til friðunar þegar verð er lágt

•           LS hefur gegnum tíðina óskað eftir takmörkunum á veiðitíma þegar markaðsaðstæður eru slakar

Sjá nánar á vef LS.