Þótt flestir íslenskir togarar séu búnir margvíslegum tækjum til þess að auðvelda skipstjórunum veiðarnar vita þeir lítið um stærðir og tegundir fisksins framan við og inni í trollinu (ef frá er talin reynslan af viðkomandi fiskimiðum). Öll tækin sem nú eru notuð senda upplýsingar með hljóðmerkjum upp í skipið. Til þess að afla nákvæmrar vitneskju um það í rauntíma hvað væri að gerast þyrfti að koma taug með rafmagni og helst ljósleiðara að veiðarfærinu.
Þetta kom fram í erindi Haraldar Arnar Einarssonar fiskifræðings og veiðarfærasérfræðings Hafrannsóknastofnunar á Sjávarútvegsráðstefnunni á dögunum. Hann sér fyrir sér að ljósleiðarinn myndi verða leiddur að samskiptaboxi framarlega í trollinu og svo færu leiðslur þaðan í myndavélar og annan tækjabúnað. Með þeim hætti myndi skipstjórinn geta fylgst með því ofan úr brúnni hvað væri að gerast hverju sinni. Einnig mætti koma fyrir greiningarbúnaði eins og Fiskvalanum sem Stjörnu Oddi hefur smíðað frumgerð af, en hann greinir tegundir og stærðarsamsetningu framan við trollpokann.
Haraldur telur að ef fjármunir yrðu settir í að þróa leið til þess að koma ljósleiðara niður troll og hanna tilheyrandi búnað ætti það ekki að taka nema nokkra mánuði. Segja má að vísir að þessari þróun hafi séð dagsins ljós með nýrri togtaug Hampiðjunnar sem flytur rafmagn sem notað er til að stýra toghlerum.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.