Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa merkt  fjölda þorska í netaralli síðastliðinna þriggja ára. Alls hafa verið merktir 2.492 þorskar árið 2020, 4.133 árið 2021 og 3.524 þorskar voru í netaralli ársins 2022. Af þessum þorskum var 151 þorskur merktur með rafeindamerkjum á Suðvestur svæðinu árið 2022.

Markmið með þorskmerkingum í netarallinu er að afla frekari upplýsinga um göngur þorsks, blöndun hrygningarþorsks á fæðusvæðum og tryggð við hrygningarsvæði.

Þorskmerkingar voru framkvæmdar einn dag á fimm rannsóknasvæðum árið 2022. Stefnt var að því að merkja þúsund þorska á hverju svæði. Lagt var á svæðum þar sem fyrir fram mátti búast við því að fá töluvert af þorski.

Net voru dregin varlega um borð, sprækir þorskar úr öllum stærðarflokkum voru teknir úr netinu og settir í sjó í kari um borð. Lífvænlegir þorskar voru teknir úr körunum, lengdarmældir, tvímerktir með tveimur slöngumerkjum og sleppt aftur út í hafið.

Endurheimtur

Endurheimtur eru orðnar alls 417 þorskar úr merkingunum 2020‐2021, 201 árið 2020 og 216 árið 2021. Endurheimtuhlutfall eftir svæðum og árum er á bilinu 3‐10%.

Almennt voru fleiri þorskar endurheimtir á fæðutíma, á tímabilinu frá júní‐febrúar. Þorskar sem voru merktir í Breiðafirði endurheimtust flestir í Breiðafirði, út af Vestfjörðum og fyrir norðan landið. Færri endurheimtust við suðvestur land og fyrir austan land. Þorskar sem voru merktir við Reykjanes endurheimtust flestir í kringum Reykjanesið en nokkrir þorskar endurheimtust út af Vestfjörðum og fyrir norðan land. Þorskar sem voru merktir við Suðvesturströndina fóru vestur með landinu og flestir endurheimtust í Faxaflóa, Breiðafirði og út af Vestfjörðum.

Endurheimtur hafa verið nokkrar fyrir norðan og austan land auk fjögurra þorska á Dohrn-banka. Þorskar sem voru merktir í Öxarfirði voru allir endurheimtir við norðausturhornið fyrir utan tvo. Þorskar sem voru merktir við suðaustur ströndina endurheimtust flestir fyrir austan land. Nokkrir endurheimtust á öðrum svæðum og tveir á Íslands‐Færeyjahrygg.

Merkingar í rúma öld

En þá er bara hálf sagan sögð. Fiskar hafa verið merktir við Ísland í meira en eina öld.

Árið 2019 hófust merkingar á þorski aftur eftir hlé og hafa rúmlega sautján þúsund þorskar verið merktir með slöngumerkjum frá mars 2019 til apríl 2022.

Rafeindamerki voru fyrst notuð hér við land árið 1995. Fyrir aldamót voru rúmlega þúsund þorskar merktir með rafeindamerkjum. Merkingunum var haldið áfram til ársins 2010 en frá þeim tíma hafa þorskmerkingar með rafeindamerkjum legið niðri.

Fyrstu árin var minnið í merkinu takmarkað og því var mismunandi tíðni í skráðum mælingum. Stundum voru mælingar aðeins skráðar á sex klukkutíma fresti til að ná sem lengstri tímaröð. Merkin hafa verið í mikilli þróun og geta þau nú tekið á móti mælingum á 10 mínútna fresti í þrjú ár eða lengur ef tíðni milli mælinga er lengri.