Aflaheimildir í Fjarðabyggð skerðast um alls 13.300 þorskígildistonn á ári, miðað við 20 ára meðaltals úthlutun, þegar fyrirhuguð lög ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða verða að fullu komin til framkvæmda.
Starfsmenn í sjávarútvegsfyrirtækjum í Fjarðabyggð eru tæplega 500 talsins. Skerðing um 13.300 þíg-tonn svarar til atvinnu fyrir 100 sjómenn og starfsfólk í landvinnslu. Kjör þeirra sem eftir verða munu rýrna.
Þetta sagði Gunnþór Ingvason formaður Útvegsmannafélags Austurlands og framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á blaðamannafundi í gær.
Miðað við meðalúthlutun síðustu 20 ára mun bolfiskkvóti skerðast um 71 þúsund þíg-tonn á næstu 15 árum og kvóti uppsjávarfisks um 535 þús. tonn, að sögn Gunnþórs.
,,Kjör munu rýrna og störf tapast á Austurlandi. Af hverju á að flytja störf frá fjölskyldum og fyrirvinnum til manna sem hafa selt sig út úr kvótakerfinu á liðnum árum?" spurði Gunnþór Ingvason.