Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, heldur senn til Tuzla í Tyrklandi að ganga frá búnaði um borð í nýju stálskipi sem þar er verið að smíða fyrir Stakkavík. Nota á skipið í krókaaflamarkskerfinu.

„Við húkkuðum far fyrir skipið á sementsflutningaskipi sem er að koma frá Izmir í Tyrklandi til Grundartanga,“ segir Þráinn. „Báturinn hefði þannig séð orðið klár svolítið fyrr en við erum að bíða eftir farinu.“

Að sögn Þráins hefur smíðin ytra gengið mjög vel eftir að hún var færð til skipasmíðastöðvarinnar Celiktrans í Tuzla í útjaðri Istanbul. Sú stöð smíðaði meðal annars Engey, Akurey og Þerney og er að smíða nýjan togara fyrir Ramma.

Þráinn segir um að ræða nokkurs konar tilraunaverkefni sem byggi á nýrri hugsun.

„Þótt báturinn sé að flestu leyti á sömu málum og þessir hefðbundnu plastbátar sem hafa verið framleiddir fyrir krókakerfið þá er skipið smíðað eftir allt öðrum gæðakröfum. Það er náttúrlega smíðað sem stálskip og allur búnaður er margfalt öflugri og vandaðri heldur en hefur verið í plastbátunum,“ segir Þráinn.

Kaupa allan búnað á Íslandi

Skipið er hannað af Ráðgarði Skiparáðgjöf í samtarfi við Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Allur búnaðurinn um borð er keyptur á Íslandi og sendur utan að sögn Þráins. Þessi búnaður hafi kostað á annað hundruð milljónir króna.

Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. FF Mynd/Guðjón Guðmundsson
Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. FF Mynd/Guðjón Guðmundsson

„Hugsunin hjá okkur er að gera þetta svona til þess að fá þjónustu fyrir búnaðinn og líka að það sé ekkert vandamál að fá varahluti. Ég veit hvað það er mikið atriði að geta nálgast þennan búnað hjá þeim sem seldi hann,“ segir Þráinn og vísar til langrar reynslu sinnar.

„Við erum að vona að skipið verði komið hingað um eða fyrir miðjan september og stefnum á að afhending verði um fjórum vikum síðar,“ segir Þráinn. Þannig verði nýja skipið komið í hendur Stakkavíkur um miðjan október.

Skipið er selt á 370 milljónir króna. Þráinn segir að nú sé verið að taka saman kostnaðinn svo hægt sé að vita hvað næsta skip muni kosta. „Við erum að vona að við náum að halda því fyrir neðan 450 milljónir.“