Endurheimtur á merkjum gefa vísbendingar um að grásleppan hrygni aðeins einu sinni hér við land. Um það er þó ekki hægt að fullyrða þar sem rannsóknir standa enn yfir, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Á síðustu árum hafa rannsóknir á hrognkelsum verið efldar og hafa þær verið samstarverkefni milli BioPol ehf. og Hafrannsóknastofnunarinnar.

Alls hafa verið merktar um 9.383 grásleppur á fjögurra ára tímabili og undirbúningur er hafinn að merkingum á vertíðinni í ár, fimmta árið í röð.

Flest merkin núna endurheimtust á fyrsta ári, eða um 8,8%, en aðeins 0,9% endurheimtra merkja fundust árið eftir. Ekkert merki fannst hins vegar eftir þrjú ár. Þetta vekur þær spurningar hvort grásleppan komi aðeins einu sinni á lífsferlinum upp að strönd Íslands til að hrygna og tvisvar í örfáum tilvikum. Um það er ekkert hægt að fullyrða fyrr en rannsóknum lýkur.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.