Eldi á hrognkelsum hefur vaxið ört í Noregi og er nú svo komið að hrognkelsi eru þriðja stærsta eldistegundin í Noregi, næst á eftir laxi og regnbogasilungi. Alls voru seld 11,8 milljónir hrognkelsa á árinu samanborið við 3,5 milljónir árið á undan. Hrognkelsin eru sett í eldiskvíar lax og silungs í þeim tilgangi að hreinsa fiskana af laxalús.
Af öðrum eldistegundum í Noregi má nefna að 1.277 tonn af eldislúðu voru seld og 257 tonn af eldisbleikju.
Í frétt á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins kemur fram að seld hafi verið 1.350 þúsund tonn af norskum eldislaxi á síðasta ári að verðmæti 663 milljarðar íslenskra króna. Það er 2,5 sinnum meira en heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi í fyrra. Meðalverð á kíló var liðlega 500 íslenskar krónur.
Alls störfuðu 6.700 manns í eldisiðnaðinum í Noregi á síðasta ári.