Vinnsla á loðnuhrognum fer að hefjast í Vestmannaeyjum og líklegt má telja að fyrstu hrognin verði fryst á morgun eða laugardag úr farmi úr Ísleifi VE sem er núna vestast í göngu sem er komin langt vestur að Garðskaga.

Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Gullbergi VE, var í landi og var verið að þrífa skipið hátt og lágt áður en farið yrði á ný í kvöld eða fyrramálið til veiða á hrognafullri loðnu. Gullbergið hafði þá nýlega landað um 900 tonnum af loðnu sem fór í heilfrystingu.

Allir á tánum

„Við erum stopp aðeins núna því næst förum við í hrognakreistingu. Við þurfum því að þrífa og sterilísera lestarnar til að undirbúa það. Ísleifur VE fór svo í gærkvöldi og er í veiði vestur af Garðskaga. Hann er fremst í göngunni þar sem hrognaþroskinn er mestur. Eins og við köllum það þá var um 65% runnið. Svo ég útskýri það þá hangir hrognapokinn saman þegar við tökum aflann í heilfrystingu. Þegar líður á fer loðnan að losa pokann, sem kallað er. Þannig að þegar við tökum þá hrognasekkinn úr loðnunni þá flest hann út. Þegar um 80% af aflanum er kominn á þennan stað þá eru hrognin í loðnunni komin upp í um 24% af heildarþyngd loðnunnar. Þá er hún farin að búa sig undir hrygningu og tímabært fyrir okkur að fara að kreista hana,“ segir Jón Atli.

Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Gullbergi VE.
Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Gullbergi VE.
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

Hann segir allt þetta ferli kalla á mikla nákvæmni og sé stöðugt verið að taka prufur í skipunum, senda myndir í land og útgerðirnar að leggja mat á stöðuna. Það séu allir á tánum meðan þetta gengur yfir.

Sighvatur Bjarnason VE var að landa loðnu sem hann fékk við Alviðru út af Skarðsfjöru og hrognaþroskinn var mun skemur á veg kominn þar. Verið er að vinna úr honum heilfrysta loðnu.

Jón Atli segir að þótt Ísleifur sé nú að veiða norðvestur af Garðskaga sé loðna langt austur eftir Suðurlandinu. Menn reyni hins vegar að einbeita sér að rétta hrognastiginu. Nú hafi verið tekin ákvörðun um að menn einbeittu sér að hrognatökunni og þá verði farið fremst í gönguna vestur af landinu og henni fylgt eftir.

Skemmtilegasti tími ársins

„Það gæti alveg hafist hrognafrysting hérna í Eyjum á morgun ef Ísleifur fær afla í dag sem hentar til þess. Gullberg og Huginn fara sennilega báðir í kvöld fremst í gönguna og svo bætist Sighvatur Bjarnason í hópinn þegar búið er að landa úr honum og þrífa hann. Það verður að hafa alla króka úti núna því þetta gengur hratt yfir. Okkur allflestum finnst þetta allra skemmtilegasti tími ársins. Það er keppni í mannskapnum og áhafnirnar eru á fullri ferð á samfélagsmiðlunum og þær vita stundum meira en við uppi í brúnni hvað hin skipin eru að fá,“ segir Jón Atli.