Hreyfing er komin á kaup á nýju varðskipi fyrir Landhelgisgæsluna. Samkvæmt heimildum Fiskifrétta eru fulltrúar á vegum Landhelgisgæslunnar staddir ytra en skipið sem sjónir stofnunarinnar beinast nú að er þjónustuskipið GH Endurance.
Sem kunnugt er féllst ríkisstjórn Íslands á tillögu dómsmálaráðherra fyrr á þessu ári um að hafist verði handa við kaup á nýlegu skipi fyrir Landhelgisgæsluna. Ástæðan var ekki síst bilun í vél varðskipsins Týs sem ekki þótti hagkvæmt að gera við. Týr hefur þjónað landsmönnum í 46 ár.
Fimm tilboð bárust í útboði Ríkiskaupa og Landhelgisgæslunnar vegna kaupa á nýju varðskipi í maí síðastliðnum. Lægsta tilboðið hljóðaði upp á 1,1 milljarð króna en það hæsta 2,1 milljarður króna.
Skipið sem um ræðir var smíðað árið 2010 og siglir undir fána Antigua Barbuda. Það er í eigu United Offshore Support í Leer í Þýskalandi og hefur þjónustað olíuiðnaðinn í Eystrasalti.
GH Endurance, sem fær líklega nafnið Freyja verði það fyrir valinu, er 86 metrar á lengd og tæpir 20 metrar á breidd. Aðalvélarnar eru tvær, samtals 16.320 hestöfl. Toggeta skipsins er 210 tonn en til samanburðar má nefna að dráttargeta varðskipsins Þórs er 120 tonn. Miklar breytingar hafa orðið á fraktskipum sem koma til landsins frá því Þór var keyptur nýr til landsins frá Chile árið 2011. Þau eru orðin mun stærri og því áríðandi að skip með mikilli toggetu sé í flota Landhelgisgæslunnar.
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við Fiskifréttir að hann vænti þess að niðurstaða fáist í þessi mál strax í næstu viku. Viðræður standi yfir við fleiri en einn tilboðshafa en sem fyrr segir beinast sjónir nú að GH Endurance.