Samkvæmt reglugerð um hrognkelsaveiðar er grásleppukörlum á Norður- og A-landi og við Reykjanes heimilt að hefja veiðar nk. fimmtudag 20. mars. Á öðrum svæðum að undanskildum innanverðum Breiðafirði má hefja veiðar 1. apríl.
„Meiri óvissa er um upphaf og horfur á komandi vertíð en verið hefur mörg undanfarin ár. Kaupendur sýna lítinn áhuga og verð sem nefnd hafa verið eru lægri en í fyrra, sem er hreinasta móðgun eins og einn grásleppukarlinn orðaði það. Auk þessa er ekkert vitað um fjölda veiðidaga, það veltur á því hver útkoman verður úr togararalli Hafrannsóknastofnunar,“ segir á vef Landssambands smábátaeigenda (LS).
Ennfremur segir á vef LS: „Þegar tekið er mið af símtölum á skrifstofu LS er ljóst að áhugi fyrir veiðunum er takmarkaður. Flestir gefa þær skýringar að verðið sem nefnt hefur verið sé of lágt og nægi ekki til að dekka kostnað við veiðarnar. Þá sé mikilvægt að draga úr veiðinni til að jafnvægi komist á framboð og eftirspurn. Einnig nefna menn sem skýringu að 20 dagar nú byggist á mun slakari mælingu úr togararalli. Líkur á að þeim verði fjölgað í ásættanlega tölu séu því ekki miklar.“
Kavíarinn lækkar minna en hráefnið
Landssamband smábátaeigenda hefur farið yfir útflutningstölur frá Hagstofu Ísland fyrir sl. ár og borið saman við 2012. Þar kemur fram að verðlækkun á kavíar varð mun minni en á hráefninu og munar þar tugum prósenta.
Að mati LS er því ekki forsenda til að lækka verð á grásleppuhrognum meira en orðið er. Snúa þarf dæminu við og gefa skýr skilaboð um verðhækkun.
LS telur að náist samkomulag um að 250 kr. kílóaverð á óskorinni grásleppu muni það mynda stöðugleika og minnka þann óróa sem verið hefur á mörkuðum best að hefja veiðar.
Sjá nánar á vef LS.