Norsk stjórnvöld hafa gefið út hrefnukvótann fyrir þetta ár og er hann 1.286 dýr eða sá sami og í fyrra. Sú breyting hefur hins vegar verið gerð, að á þessu ári er bátunum frjálst að veiða hrefnurnar hvar sem þeir kjósa.

Þessu fagna hvalfangararnir mjög því undanfarin ár hefur veiðisvæðinu verið skipt niður í hólf að fyrirmælum Alþjóðahafrannsóknaráðsins og sex ára kvóti gefinn fyrir hvert hólf. Þar sem veiðin hefur verið best við Svalbarða var svo komið að sex ára kvótinn var nánast uppurinn á tveimur árum. Því sáu veiðimenn fram á að verða úthýst af besta veiðisvæðinu að óbreyttu.

Hrefnuveiðar við Noreg hófust að nýju fyrir 20 árum og hefur kvótinn verið að aukast jafnt og þétt úr 300-400 dýrum í næstum 1.300 dýr. Veiðarnar hafa hins vegar ekki fylgt kvótaaukningunni því í fyrra nam aflinn ekki nema rúmlega 500 dýrum.
Fiskeribladet/Fiskaren skýrir frá þessu.