Norðmenn eru leiðandi þjóð í framleiðslu á lýsi sem hráefni í heilsufæði og markaðshlutdeild þeirra í heiminum er um 20%, segir í skýrslu sem kynnt er á heimasíðu rannsóknaráðs sjávarútvegsins í Noregi (FHF).
Í skýrslunni er gerð grein fyrir starfsemi og þróun þeirra fyrirtækja sem vinna efni úr sjávarfangi sem notuð eru sem hráefni í heilsufæði. Heildarveltan í þessari grein árið 2010 var um 4,8 milljarðar norskra króna (98 milljarðar ISK) en var um 4,3 milljarðar árið áður.
Alls eru um 50 fyrirtæki starfandi í þessari grein. Auk þess eru 2-3 fyrirtæki sem vinna efni úr þangi. Greinin hefur vaxið hratt á fáeinum árum. Frá árinu 2007 til 2010 hefur aukningin verið 53% en umsvifin hafa fimmfaldast frá árinu 2001.