Skrifað var undir samning í vikunni um sölu og uppsetningu á próteinverksmiðju HPP Solutions til finnska fyrirtækisins Meitmel. HPP Solutions er sjálfstætt dótturfélag Héðins en próteinverksmiðjan er byggð á íslensku verk- og hugviti og var í þróun hjá Héðni í um tíu ár en fyrsta gerð hennar var gangsett ári 2017 um borð í Sólbergi ÓF-1 frá Ramma hf.
HPP Solutions varð sjálfstætt félag um síðustu áramót en mismundandi útgáfur af próteinverksmiðjunni hafa verið seldar til ýmissa landa utan Íslands, til skipaútgerða og fyrirtækja í landvinnslu. Að meðtöldum samningnum við Finnana nema útflutningsverðmætin samtals um sjö milljörðum króna.
Próteinverksmiðjan sem fer til Finnlands er gerð fyrir landvinnslu. Hún verður reist í bænum Kaskinen, sem er staðsett vestast í landinu og var áður aðal fiskihöfn Finnlands.
Mynd: Anders Granfors og Jonathan Hast eigendur Meitmel, Ragnar Sverrisson, framkvæmdastjóri HPP Solutions, Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Finnlandi og Pétur Jakob Pétursson, markaðs- og sölustjóri HPP Solutions. Skrifað var undir samninginn í ráðhúsi Kaskinen. Mynd/HPP Solutions