„Þetta er bara ekki hægt,“ segir Sigurður Jökull Ólafsson, formaður Cruise Iceland, eins af þremur hagsmunasamtökum sem lýsa harðri andstöðu við nýtt innviðagjald á farþega skemmtiferðaskipa.

Sigurður segir frumvarp frá fjármálaráðuneytinu, sem felur í sér innviðagjald á hvern farþega skemmtiferðaskipa á sólarhring,  hafa komið mjög skyndilega fram og að aðeins hafi verið gefinn örfárra daga frestur til að senda inn athugasemdir.

Gjaldið á hvern sólarhring á að vera 2.500 krónur á farþega sem hingað kemur siglandi með skemmtiferðaskipi en 400 krónur á þá sem hingað koma fljúgandi og fara í hringsiglingu um landið. Kemur hringsiglingargjaldið í stað núverandi 1.000 króna gistináttagjalds.

Eftir breytingarnar reiknar fjármálaráðuneytið með 1,5 milljörðum króna í auknar tekjur.

Innviðagjaldið sé í raun landsbyggðarskattur

Í umsögn samtakanna þriggja, sem auk Cruise Iceland eru CLIA (Cruise Lines International Association) og AECO (Association of Arctic Expedition Cruise Operators), til Alþingis er lýst yfir harðri andstöðu við frumvarpið og fyrri löggjöf um afnám tollfrelsis á skemmtiferðaskip frá næstu áramótum mótmælt.

Sigurdur Jökull Ólafsson, formaður stjórnar Cruise Iceland. Mynd/Aðsend
Sigurdur Jökull Ólafsson, formaður stjórnar Cruise Iceland. Mynd/Aðsend

„Upphæðin er fimm sinnum hærri en gistináttaskatturinn sem er aflagður og er einnig án nokkurra fordæma á heimsvísu hjá öðrum þjóðum fyrir hverjar 24 stundir sem skip er innan efnahagslögsögu,“ segir um innviðagjaldið í umsögninni. „Verði innviðagjaldið lagt á með þessum hætti mun það líklega hafa miklar afleiðingar fyrir starfsemi skemmtiferðaskipa við Ísland. Þetta skapar sérstaka áhættu fyrir minni samfélög á landsbyggðinni sem reiða sig að miklu leyti á tekjur frá skemmtiferðaskipum og er í raun landsbyggðarskattur.“

Fáránlega há upphæð

Þá segir að innviðagjaldið mismuni félögum í ferðaþjónustu því aðeins farþegar skemmtiferðaskipa verði látnir greiða það. „Forgangsröðun stjórnvalda með þessum hætti er undarleg,“ segir í umsögninni. Farþegaflutningar með skemmtiferðaskipum sé eina leiðin sem færi alþjóðlega ferðamenn beint til áfangastaða eins og Ísafjarðar, Grímseyjar, Húsavíkur, Borgarfjarðar eystri, Seyðisfjarðar eða Vestmannaeyja.

„Álagning innviðagjalds með svo fáránlega hárri upphæð sem 2.500 ISK á farþega á dag frá 1. janúar 2025 leyfir skemmtiferðaskipunum með engu móti að aðlagast fyrirkomulaginu í tæka tíð,“ segir áfram í umsögninni þar sem vinnubrögð stjórnvalda fá ekki háa einkunn.

„Um einstaklega slæma stjórnsýslu að ræða“

„Af hálfu fjármálaráðuneytisins er um einstaklega slæma stjórnsýslu að ræða að gefa aðeins tvo virka daga til að koma með andmæli við fyrirhugaða lagabreytingu. Við óskum því eftir lengri umsagnarfresti svo hagaðilar hafi viðunandi tækifæri til að koma að ítarlegri athugasemdum,“ segja samtökin og benda á í þessu samhengi að öll skemmtiferðaskip sem sigla við Ísland séu í eigu erlendra fyrirtækja. Ómögulegt sé að þýða lagatexta á ensku, leggja mat á áhrifin og þýða aftur á íslensku, innan svo stutts tímafrests. „Er það því skýrt merki um lélega stjórnsýslu.“

Starfsstjórnin sé umboðslaus

Þessu til viðbótar er dregið í efa að það sé í raun á færi núverandi ríkisstjórnar að standa að slíku máli. „Vegna alvarleika ákvörðunarinnar fyrir skemmtiferðaskipageirann og ferðaþjónustuna á Íslandi þá teljum við að um sé að ræða pólitíska ákvörðun sem starfsstjórn hafi ekki umboð til að taka,“ segja samtökin.

Um sé að ræða stefnumótandi ákvörðun sem grafi alvarlega undan ferðaþjónustu á landsbyggðinni. „Eðlilegt er að pólitískar ákvarðanir sem hafa áhrif á heilan geira ferðaþjónustunnar í mörgum sveitarfélögum séu teknar af stjórnmálamönnum sem hafi umboð til að taka slíkar ákvarðanir og verði látnir bera ábyrgð á þeim í kosningum.“

Sett í ómögulega stöðu

Samtökin segja ekkert benda til þess að aðgerðin muni hafa jákvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu eða íslenskan efnahag. Álagning innviðagjalds með svo stuttum fyrirvara setji skemmtiferðaskipin í ómögulega stöðu þar sem sigling með skemmtiferðaskipi sé sett á markað með margra ára fyrirvara.

Verði innviðagjaldið engu að síður lagt á mælist samtökin til þess að það verði 500 krónur frá næstu áramótum og fari svo stighækkandi til 2028 svo geirinn geti aðlagast nýja fyrirkomulaginu og forðast hættuna á afbókunum og fjárhagslegum skaða.

Reynir að skýra málið ytra

Sigurður Jökull hjá Crusie Iceland fór nú í vikunni á skemmtiferðaskiparáðstefnu í Osló þar sem hann segist leitast við að milda áhrifin af ákvörðunum stjórnvalda hér.

„Þetta hefur náttúrlega skapað alveg gífurlega óvissu þannig að mitt hlutverk er fyrst og fremst að segja hvað hefur verið gert og hvað við erum að gera til þess að tryggja það að við fáum frest þannig að það sé fyrirsjáanleiki, að minnsta kosti í tvö ár,“ segir Sigurður Jökull. Mjög erfitt sé að eiga við slíka gjaldtöku.

„Þetta eru mjög há gjöld, þau hæstu í heimi,“ segir Sigurður Jökull. Ef slík gjöld eigi að leggja á þurfi að gera með það mun meira fyrirvara. „Margir eru búnir að kaupa ferð fyrir tveimur árum síðan þannig að það verður bara að fá frest, það þarf að uppfæra verðin. Annars lendir þetta bara beint á kassann á skipafélögunum.“