Byggðaráð Múlaþings hefur nú gefið út erindisbréf fyrir samráðshóp um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði.

„Tilefni vinnu samráðshópsins er fyrirhuguð lokun Síldarvinnslunnar hf. á bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði,“ er minnt á í fundargerð byggðaráðsins sem samþykkt hafði 26, september að hópurinn yrði skipaður.

„Verkefni samráðshópsins er að greina valkosti varðandi framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði, svo sem nútímavæðingu fiskvinnslu,“ segir byggðaráðið sem ætlar hópnum að „auglýsa eftir tillögum að atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði sem skapa heilsársstörf, greina raunhæfni þeirra valkosta er tillögur verða gerðar um og eiga samráð við íbúa Seyðisfjarðar varðandi úrvinnslukosti.“ Þegar hefur verið auglýst eftir tillögum að atvinnuuppbyggingu..

Niðurstöður í lok febrúar

Samráðshópurinn á að stefna að því að skila af sér niðurstöðum um mánaðarmótin febrúar-mars 2024, það er að segja eftir tæpa fjóra mánuði.

Eins og fram hefur komið hyggst Síldarvinnslan loka bolfiskvinnslu sinni á Seyðisfirði og missa þá um þrjátíu manns vinnuna. Fulltrúi fyrirtækisins, Ómar Bogason, á sæti í samráðshópnum. Að auki eru þar Vilhjálmur Jónsson og Þröstur Jónsson, sem eru tilnefndir af byggðaráði Múlaþings, Margrét Guðjónsdóttir, tilnefnd af heimastjórn Seyðisfjarðar og Urður Gunnarsdóttir tilnefnd af Austurbrú.