Síðasta áratug hefur sala á mörkuðum heldur verið að aukast. Langmest er selt af botnfiski og flatfiski en ekkert af uppsjávarfiski. Ekkert er heldur selt af skelfiski á mörkuðum.

Árið 2019 var 17,4% af lönduðum botnfiskafla selt á innlendum fiskmörkuðum.

Misjafnt er hversu mikið af hverri fisktegund er selt á markaði, en á undanförnum áratug hefur langmest verið selt af þorski og ýsu. Sala á þorski nam að jafnaði um 35.000 tonnum á árunum 2009-2019 og sala á ýsu um 17.000 tonnum.

Undanfarinn áratug hafa um 6.700 tonn verið seld af ufsa á fiskmörkuðum á hverju ári og um 4.600 tonn af karfa og steinbít. Minna magn hefur verið boðið upp af öðrum tegundum enda heildarafli þeirra minni.

Misjafnt er hver þróun verðs hefur verið á helstu tegundum sem seldar eru á fiskmörkuðum á árunum 1997-2020. Á verðlagi í september 2020 hefur verð á þorski hækkað mest eða um 46%. Ýsa hækkaði á sama tímabili um 21%, karfi um 14%, skarkoli um 4% og langa um 2%. Steinbítur og ufsi lækkaði aftur á móti í verði á þessu tímabili.

Heimild: Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi.