Hnúfubakur hefur tekið við af hrefnu sem ríkjandi tegund skíðishvala á landgrunni Íslands, og því algengasta tegund stórhvala við Ísland. Í því ljósi er aðkallandi að afla meiri upplýsinga um stöðu tegundarinnar í vistkerfinu hér við land.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins 2000-2019. Skýrslan var unnin að beiðni Ingu Sæland og sextán annarra alþingismanna og var sett fram þegar loðnubrestur vetrarins blasti við. Skýrslan lá fyrir þann 6. september.

Hrefnan heldur sig norðar

Hafrannsóknastofnun hefur staðið fyrir hvalatalningum við Ísland á tveggja til átta ára fresti síðan árið 1987. Á þessu rúmlega þrjátíu ára tímabili hafa orðið ýmsar breytingar á fjölda og útbreiðslu hvala við landið. Breytingar þessar hafa þá verið óvenju hraðar frá því um síðustu aldamót og tengjast þær líklega að einhverju leyti hlýnun sjávar, segir í skýrslunni.

Hrefnu hefur fækkað mikið á grunnsævi við Ísland en hnúfubak að sama skapi fjölgað. Útbreiðsla hrefnu virðist hafa hliðrast norðar, en langreyði hefur aftur fjölgað mikið við landið en sú tegund heldur sig mest utan landgrunnsins.

Samkvæmt talningum árið 2015 var áætlað að um 5000 langreyðar og 7000 hnúfubakar hefðu verið á loðnuslóð í september, en síðan hafa gögn úr leiðöngrum ekki dugað til að fylla upp í þá mynd sem fékkst árið 2015 og er veðurskilyrðum í síðari leiðöngrum um að kenna.

Heildarafrán 12 hvalategunda við landið hefur aukist á undanförnum árum og reiknast 7,6 milljónir tonna, þar af 3,3 milljónir tonna af fiski. Stórtækustu afræningjarnir er langreyður sem áætlað er að taki til sín 1,8 milljónir tonna, hrefna éti 1,5 milljónir tonna er áætlað og hnúfubakur aðra 1,1 milljón tonn.

Þeir stórtækustu

Veruleg óvissa er um magn afráns hvala á loðnu vegna skorts á upplýsingum um fæðusamsetningu flestra tegunda, segir í skýrslunni. Einkum hafa þó verð nefndar fjórar tegundir hvala sem mikilhæfir afræningjar á loðnu.

Samkvæmt rannsóknum á fæðu langreyðar hér við land gnæfir ljósáta yfir allt annað í fæðuvali tegundarinnar. Lætur að líkum að yfir 95% af öllu sem hún étur sé ljósáta. Takmörkuð gögn benda þó til að fiskur sé eitthvað stærri hluti fæðunnar síðsumars norðarlega á hvalveiðisvæðinu vestur og suðvestur af landinu hvaðan gögnin eru fengin.

Hrefnan tekur mikið til sín. Samkvæmt rannsóknum árin 2003 til 2007 var loðna um 10% af fæðu hrefnu, en var mun stærri hluti fæðunnar í kringum 1980.

„Hugsanlega er samhengi milli þessara fæðubreytinga og fækkunar hrefnu á landgrunninu eftir 2001,“ segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar.

Fæðuval hnúfubaks er gott sem óþekkt, þótt vitað sé að hnúfubakur éti bæði oðnu og ljósátu. Talsverður fjöldi hnúfubaka heldur til á loðnuslóð á haustin og veturna.

„Ef gengið er út frá að 60% fæðunnar sé fiskur nemur árlegt afrán fisks þá 672.000 tonnum. Hér er þó nánast um ágiskun að ræða varðandi fæðuval, og f ger er t.d. ráð fyrir 80% átu fellur matið á fiskáti hnúfubaks niður í 224.000 tonn.“

Eina stóra rannsóknin sem gerð hefur verið á fæðu hnísu hér við land sýndi yfirgnæfandi þátt loðnu í fæðunni einkum síðvetrar. Þessar rannsóknir voru gerðar fyrir aldamót og ekki er ljóst að hve miklu leyti þær endursegla ástandið í dag vegna breytinga á göngumynstri loðnu, kemur fram í skýrslunni.

Talið að sumri

Talningar hvala við Ísland fara fram að sumarlagi þegar fjöldi flestra tegunda stórhvala er í hámarki en mun minni gögn liggja fyrir um fjölda og útbreiðslu hvala á öðrum árstímum. Undanfarin ár hefur Hafrannsóknastofnun reynt að kortleggja fjölda og útbreiðslu hvala í loðnuleiðöngrum að hausti, sem ekki hafa skilað ásættanlegum niðurstöðum eftir talninguna árið 2015 og er veðri um að kenna eins og áður sagði.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 19. september sl.