Nemendur Háskólans í Reykjavík leita nú leiða til að auka útflutning á sjófrystum ufsa til Bandaríkjanna, en Hnakkaþon 2018 , útflutningskeppni HR og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hófst í gær.
Áskorun Hnakkaþonsins í ár felst í að finna leiðir til að auka sölu á sjófrystum ufsa til hótela og veitingahúsakeðja í Bandaríkjunum, en frá þessu er sagt á heimasíðu SFS.
Í fjórða sinn
Hnakkaþonið er nú haldið í fjórða sinn. 30 nemendur HR eru skráðir í keppnina, í sex liðum. Það er til mikils að vinna því Icelandair Group og sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi bjóða sigurliðinu í fimm daga ferð til Boston, á sjávarútvegssýninguna Seafood Expo North America, í mars. Vinningslið Hnakkaþonsins 2018 verður kynnt á verðlaunaathöfn í HR á laugardaginn.
Markmiðið með Hnakkaþoninu er að kynna þau ótalmörgu tækifæri til nýsköpunar og fjölbreyttu störf sem íslenskur sjávarútvegur býður upp á og kalla fram nýjar og frískar hugmyndir frá nemendum HR. Þá er eitt af meginmarkmiðum Hnakkaþonsins að minna nemendur á að arðbærni og góð umgengni um náttúruna verða að fara saman ef atvinnustarfsemi á að vera sjálfbær.
Hnakkaþonið er einnig liður í áherslu Háskólans í Reykjavík á raunhæf verkefni í námi, í samvinnu við íslenskt atvinnulíf.