Í nýrri skýrslu um hrun í þorskstofninum við norðausturströnd Bandaríkjanna er í fyrsta sinn gefið til kynna að hröð hlýnun sjávar hafi ráðið miklu hvernig fór.

Skýrslan er birt í vísindaritinu Science og þar segir að þorskstofninn hafi skroppið saman vegna þess að sjórinn í Maine-flóa hafi hlýnað 99% hraðar en sjór annars staðar í heiminum og komið í veg fyrir að þorskstofninn næði sér á strik þrátt fyrir lágmarksveiði. Hlýnunin varð meðal annars vegna breytinga á Golfstrauminum og fleiri þáttum.  Maine-flói var ekki lengur hagstætt búsvæði fyrir þorsk.

Stjórnvöld skáru niður þorskkvótann ár eftir ár en í stað þess að stofninn byggðist upp hélt hann áfram að minnka. Ekki var reiknað með hlýnuninni og því fór sem fór. Sjómenn fóru að settum reglum og veiddu ekki meira en útgefinn kvóta en stuðluðu samt óafvitandi að hruni í stofninum.