Heildarafskriftir á kröfum hjá Landsbankanum frá hruni eru 304 milljarðar króna. Þar af eru um 14 milljarðar vegna sjávarútvegs.

Þessar upplýsingar komu fram hjá Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva fyrir skömmu.

Landsbankinn er stærsti viðskiptabanki sjávarútvegsfyrirtækja. Hlutfallslegar afskriftir í sjávarútvegi hjá bankanum miðað við höfuðstól lána í nóvember 2008 eru einungis rúm 5%. Lægstu afskriftir atvinnugreina eru í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi.

Aðrar greinar fóru verr út úr hruninu svo sem innflutningsfyrirtæki, verslun, byggingarstarfsemi og eignarhaldsfélög. Afskriftir í byggingariðnaði eru 38% og hjá eignarhaldsfélögum tæp 50%.