Hlutabréf í færeyska laxeldisrisanum Bakkafrost féllu um 15% í kauphöllinni í Ósló í gær í kjölfar afkomuviðvörunar fyrir annan ársfjórðung. Sumir áætla að verðmæti hlutabréfa í fyrirtækinu hafið lækkað 32 milljarða norskra króna, 418 milljarða ÍSK.

Bakkafrost lýsti því yfir seint á sunnudag að rekstrarhagnaðurinn frá apríl til júní á þessu ári yrði tæpir 7 milljarðar ÍSK vegna minna slátursmagns í laxeldi við Færeyjar og hærri kostnaðar við reksturinn í laxeldi fyrirtækisins í Skotlandi. Sérfræðingar höfðu búist við rúmlega 11 milljarða rekstrarkostnaði á öðrum ársfjórðungi.

Bakkafrost hefur aðlagað áætlanir um sláturmagn á þessu ári í 63 þúsund tonn í Færeyjum og áætlað sláturmagn í Skotlandi er 30 þúsund tonn. Fram til þessa hefur Bakkafrost aðallega þurft að glíma við vandamál í eldinu í Skotlandi en nú virðist sem hlutirnir hafi snúist við.

Við opnun markaða í gær féllu hlutabréf í Bakkafrost um 9% og höfðu svo lækkað um heil 15% áður en þau réttu nokkuð úr kútnum. Sumir telja að hagnaður Bakkafrost á árinu verði 20% lægri miðað við fyrri væntngar en þeir bjartsýnni telja að lækkunin verði um 10%.