Veiðar standa nú yfir á íslensku síldinni og hafa þær gengið misjafnt suðvestur af landinu. Hoffellið NK landaði um helgina um 650 tonnum eftir dálítið brösugan túr sem einkenndist af brælum og veiðarfæraskiptum. Það var þó fullur hugur í Sigurði Bjarnasyni skipstjóra þegar það náðist tal af honum þegar verið var að landa úr skipinu á Fáskrúðsfirði.
„Þetta gekk ekkert sérstaklega vel og við vorum hálfan sólarhring þarna án veiðarfæra í sjó. Það kom svo sem ekkert sérstakt upp á en þetta gekk bara frekar rólega fyrir sig. Við vorum tvo sólarhringa að fá þennan skammt en það kom líka bræla inn í þetta. Við vorum í Faxadýpi suð-suðvestur af Reykjanesinu. Ég get ekki sagt að það hafi verið mikið að sjá af síld þarna,“ segir Sigurður.
Nokkur önnur skip voru á svipuðum slóðum og var gangurinn misjafn eftir skipum. Sigurður sagði að þetta væri dálítill hittingur. Sumir voru heppnir og hittu vel en aðrir síður. Hann segir að síldin sé á bilinu 310 til 340 grömm sem þykir þolanlegt fyrir íslensku síldina. Sem fyrr segir stóð yfir löndun úr Hoffelli og stóð til að salta allan farminn.
Sigurður tók við Hoffellinu síðastliðið sumar og tók 790 tonn af makríl í sínum fyrsta makríltúr á skipinu í júlí. Hann er því farinn að venjast skipinu og kann vel við það. Nú sé bara að fara aftur eftir síldinni. Hoffellið er með kvóta upp á um 2.800 tonn af síld sem ættu að nást í fjórum túrum ef allt gengur að óskum.
„Ég reikna með því að við förum svo á kolmunnaveiðar í framhaldinu. Þeir eru eitthvað byrjaðir að toga þarna norðvestur Færeyjum en eitthvað lítið var um að vera þar. Þetta er kannski fullsnemmt og í það fyrsta. Ég mæti vonandi á svæðið þegar allt er komið í fullan gang,“ segir Sigurður.
Lítið að frétta af kolmunna
Að minnsta þrjú íslensk skip voru farin til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu í byrjun vikunnar, þ.e. Víkingur AK, Bjarni Ólafsson og Venus NS. Auk þess var Polar Amaroq á miðunum sem leggur upp hjá Síldarvinnslunni.
Kristján Þorvarðarson stýrimaður var í brúnni á Venusi suður af Færeyjum þegar náðist í hann. Hann sagði lítið um að vera á kolmunnanum.
„Það er ekkert að sjá hérna. Við höfum verið að leita á miðunum í sex daga, tekið tvö hol og lítið fengið. Við vorum byrjaðir að kroppa í þetta hérna á sama tíma í fyrra en fiskurinn er bara ekki kominn hingað. Við drógum í gær fyrir norðan eyjarnar og fengum lítið. Nú erum við komnir suður fyrir eyjarnar og það er lítið að frétta,“ sagði Kristján.