Enn sem komið er hefur útflutningur á hvítfiski frá Rússlandi ekki verið takmarkaður eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Rússar flytja út gríðarlegt magn af hvítfiski til Evrópu og Bandaríkjanna; þorski, ýsu og ekki síst alaskaufsa. Allt eru þetta tegundir sem eru mjög mikilvægar fyrir Evrópumarkað.
Rússar flytja út hátt í 200.000 tonn af þorski til Vestur-Evrópu. Rússar veiða um 1,7 milljón tonna upp úr sjó af alaskaufsa sem fer að mestu leyti á Evrópumarkað og að einhverju leyti til Bandaríkjanna. Hluti aflans fer svo í vinnslu í Kína og endar sem unnar afurðir ýmist í Bandaríkjunum eða Evrópu.
Markaðir rússneskra fyrirtækja fyrir þorsk eru langstærstir í Bretlandi, öðrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum. Tæplega helmingur af þorski í Fish & Chips í Bretlandi er t.d. frá Rússlandi.
Í aðdragandanum að þeim atburðum sem nú eiga sér stað í Úkraínu var lögð fram tillaga í bandaríska þinginu um að banna innflutning á sjávarafurðum frá Rússlandi. Hún hefur strandað á afstöðu þingmanna á austurströndinni, einkum á Boston-svæðinu, sem á mikið undir þessum viðskiptum og vinnslu á þessum fiski.
Það hafa orðið talsverðar verðhækkanir á hvítfiski á undanförnum mánuðum. Ef takmarkanir á útflutningi frá Rússlandi kæmu ofan á það er líklegt að það myndi leiða til verulegra verðhækkana umfram það sem hefur verið.