„Byggðakvótinn var skertur um alveg fimmtíu prósent. Við fáum þessu ekkert breytt,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, sem fær aðeins fimmtán tonna byggðakvóta miðað við þrjátíu tonn á síðustu árum.
Eva hefur fyrir hönd hreppsins átt í ítrekuðum samskiptum við matvælaráðuneytið til að freista þess að fá aukinn kvóta en það hefur sem sagt ekki skilið árangri.

Áður fyrr segir Eva að byggðakvóti Árneshrepps hafi verið allt upp í 36 þorskígildistonn.
„Svo fór þetta alltaf lækkandi og var lengi aðeins fimmtán tonn og ekkert var hægt að gera þótt við reyndum eins og við gátum að fá aukningu,“ segir Eva.
Ekki hafi ræst úr þessu fyrr en Árneshreppur hafi verið skilgreindur sem brothætt byggð og farið inn í stuðningsverkefni hjá Byggðastofnun. Nú sé því lokið eftir framlengingu um eitt ár.
Bjartsýn engu að síður
Eva er þó bjartsýn á að þessi niðurskurður í byggðakvótanum hafi ekki of mikil áhrif í sveitarfélaginu ef það verði aukin strandveiði eins og stjórnvöld séu nú að lofa.
„Við erum með mjög mikla strandveiði hér, það eru oft upp í þrjátíu bátar. Og við erum alltaf meðal hæstu hafna í sambandi við strandveiði ár eftir ár. En það hefur náttúrlega gríðarlega mikið að segja þegar þeir hafa stoppað það nánast í miðjum klíðum,“ segir Eva og vísar þar vitanlega til þess að strandveiðar séu iðulega stöðvaðar á miðju sumri vegna þess að þá er kvótinn búinn. Nú eigi hins vegar að heimila veiðarnar í 48 daga eins og kunnugt er.
„Við verðum í raun brothætt byggð áfram ef þeir hjá ríkinu halda áfram að gera ekki neitt fyrir okkur,“ ítrekar Eva.
Strandveiðibátar skili sér
Þrátt fyrir að veittir hafi verið styrkir til ýmissa verkefna í hreppnum á borð við Baskasetur í Djúpavík og sundlaugina sem ungmennafélagið eigi í Krossnesi segir Eva að ekkert hafi verið gert í sambandi við innviði. „Það er ekki búið að laga nokkurn skapaðan hlut í sambandi við betri samgöngur,“ nefnir hún sem dæmi.
Aðspurð kveðst Eva fastlega gera ráð fyrir því að sami fjöldi strandveiðibáta verði gerður úr frá Norðurfirði í Árneshreppi og verið hafi undanfarin sumur.
„Það hefur gerst að Strandabyggð fór inn í þetta verkefni með brothættar byggðir og fengu yfir 300 tonn af þorski og þar er búið að koma upp fiskvinnslu. Strandabyggð hefur náttúrlega fleira fólk en við og það gæti því verið að hluti af bátunum sem koma frá Hólmavík og Drangsnesi og Skagaströnd og víðar hætti að leggja upp hjá okkur en ég er ekkert viss um að það breytist,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir.