Tæpur helmingur af veltu Samherja-samstæðunnar kom frá dótturfélögum Samherja erlendis. „Veiðar hjá erlendum dótturfélögum okkar í Barentshafi gengu vel á árinu. Það hefur líka gengið vel í Namibíu þar sem við gerum út frystiskip og rækjuveiðar í Kanada gengu mjög vel eins og árið á undan,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri fyrirtækisins í fréttatilkynningunni um afkomu fyrirtæksins.
Hjá Samherja hf. og dótturfélögum starfa nú um 700 manns á Íslandi. Þorsteinn Már segir að margt hafi gengið vel hér heima. „Landvinnsla bolfisks í fiskvinnslum félagsins við Eyjafjörð hefur gengið vel. Í þeim fiskvinnslum tókum við á síðasta ári á móti meira hráefni en nokkru sinni fyrr. Það er stórt verkefni að vinna verðmætar afurðir úr tæpum 30 þúsund tonnum af bolfiski á ári. Okkur tókst að fylgja þessari miklu framleiðslu eftir í markaðsstarfinu en þar teljum við vera mikil tækifæri í framtíðinni. Veiðar flestra tegunda á Íslandi gengu einnig vel. Aflaverðmæti Vilhelms Þorsteinssonar EA á árinu var 4,3 milljarðar króna. Það er afbragðsgóður árangur sem ekki næst nema allir geri sitt besta, í veiðum, vinnslu, sölu og dreifingu.“