Verði frumvarpið að lögum verður auðlindagjald á bilinu 0,5 prósent og upp í 3,5 prósent af kílóverði á eldislaxi, allt eftir því hve hátt markaðsverðið er hverju sinni.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram frumvarp á alþingi um gjaldtöku vegna fiskeldis í sjó.
Samkvæmt frumvarpinu er hugmyndin sú að fjárhæð gjaldsins miðist við „nýjasta 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverð á Atlantshafslaxi“ og verði gjaldið 3,5 prósent af þeim stofni þegar verð er 4,8 evrur á kíló eða hærra, 2 prósent þegar kílóverðið er á bilinu frá 4,3 og upp að 4,8 evrum, og 0,5 prósent þegar kílóverðið fer undir 4,3 evrur.
Miðað við gengið um þessar mundir eru 4,8 evrur um það bil 638 krónur og 3,5 prósent af því eru rúmlega 22 krónur. En 4,3 evrur eru um það bil 572 krónur og 0,5 prósent af því innan við 3 krónur.
Gjaldið yrði síðan helmingi lægra af regnbogasilungi, ófrjóum laxi og laxi sem er alinn í lokuðum sjókvíum. Þarna er farið að tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi, sem lagði til í skýrslu sinni árið 2017 að hvatt yrði sérstaklega til eldis á bæði ófrjóum laxi og laxi í lokuðum sjókvíum.
Starfshópurinn lagði til að auðlindagjald geti orðið allt að 15 krónur á hvert framleitt kíló af eldislaxi í sjó.
Aðstöðumunur gjaldlagður
Í greinargerð með frumvarpinu segir að tilgangur þess sé „að tryggja ríkissjóði beint endurgjald vegna nýtingar hafsvæða í íslenskri lögsögu sem geti jafnframt staðið móti kostnaði ríkisins við stjórnsýslu. Að auki verði með því forsendur til starfrækslu sérstaks sjóðs, fiskeldissjóðs, sem gert er ráð fyrir að muni njóta framlaga af fjárlögum sem svari til þriðjungs tekna af gjaldi því sem ráðgert er að heimtist í ríkissjóð verði frumvarpið að lögum.“
Þá er tekið fram að gjaldtaka þessi grundvallist „á þeirri aðstöðu að handhafar rekstrarleyfa til sjókvíaeldis njóta takmarkaðra réttinda til hagnýtingar auðlinda. Það gefur færi til starfsemi sem hefur forsendur til að skila betri afkomu en í öðrum greinum íslensks atvinnulífs.“
Með þessu er einnig verið að viðurkenna „að öflun starfsaðstöðu sé hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækja, sem eðlilegt er að sanngjarnt gjald komi fyrir,“ að því er segir í greinargerðinni.
Horft til reynslu Færeyinga
Í greinargerðinni segir að vegna margþættrar gagnrýni hafi verið ákveðið að falla frá því að gjaldið yrði miðað við heimildir til framleiðslu, en í staðinn yrði tekin upp „framleiðslumiðuð gjaldtaka“, og var þá sérstaklega horft til reynslu Færeyinga af sambærilegu fyrirkomulagi.
Miðað er við að gjaldið verði samt heldur lægra en í Færeyjum, og er það rökstutt með því að tekjuskattur er lægri í Færeyjum auk þess sem fyrirtæki hér á landi greiða nú þegar gjald í Umhverfissjóð sjókvíaeldis.
Þá hefur færeyskum eldisfyrirtækjum gengið óvenjulega vel í rekstri á undanförnum misserum, m.a. vegna aðgangs að Rússlandsmarkaði,“ segir í greinargerðinni.