Hinu árlega netaralli Hafrannsóknastofnunar lauk síðasta föstudag. Valur Bogason sjávarvistfræðingur er verkefnisstjóri netarallsins og hann segir að úrvinnsla gagna sé að hefjast og skýrsla um niðurstöður komi út í byrjun júní.
„En þetta gekk mjög vel. Það var góður afli en talsvert minni en í fyrra en svipaður og árið 2021,“ segir hann.
Alls tóku sex bátar þátt í rallinu, þeir sömu og í fyrra og eins og venjulega er fylgt fastmótuðu gagnasöfnunarferli.
„Helmingurinn af stöðvunum eru fastar trossur og helmingurinn er skipstjóravalinn, með ákveðnum skilyrðum. Þeir mega ekki fara nema 4 mílur frá og ekki vera nær en hálfa mílu. Það er það svigrúm sem þeir hafa.“
Gífurlegar breytingar
Stofnvísitala hrygningarþorsks hefur verið há síðan 2011 og virðist ætla að haldast aftur nokkuð há í ár.
„Í raun hafa verið gífurlegar breytingar á afla í netaralli. Við erum búnir að fara núna í 28 ár og til dæmis árið 2004 vorum við að fá um 280 tonn samtals á öllum þessum svæðum, en frá 2011 hefur aflinn verið frá 800 tonnum upp undir þúsund tonn. Sem sýnir gífurlega breytingu.“
Í netaralli er verið að skoða ástand hrygningarþorsks á helstu hrygningarsvæðunum við landið. Veitt er með þorskanetum og niðurstöðurnar bornar saman við stofnmælingar með botnvörpu sem gerðar eru tvisvar á ári, í mars og október. Valur segir yfirleitt hafa verið gott samræmi milli þess sem netarallið segir og þess sem kemur út úr stofnmælingunum.
„Hér erum við bara að horfa á eldri fiskinn sem við vitum orðið miklu meira um, en það er verið að horfa til langs tíma og skoða hvort það sjást einhverjar breytingar á hrygningarsvæðum. Við skoðum ástandið á fiskinum, aldurssamsetningu og annað. Fylgjumst með breytingum á hrygningarástandi, hvort það séu einhverjar breytingar í tíma og hvort það séu breytingar á milli svæða. Hvort einhver svæði séu með meira eða minna vægi en var fyrir nokkrum árum.“
Hrundi í Kantinum
„Sem dæmi má nefna að eitt besta veiðisvæðið fyrstu ár netarallsins var Kanturinn austur af Vestmannaeyjum. Þar var jafn og góður afli meðan afli á grunnslóð var lélegri. En síðan má segja að afli hafi hrunið í Kantinum upp úr 2010. Sjómenn hafa ekkert gaman af að fara þangað eftir það, en okkur finnst þetta áhugavert svæði. Það eru margar tilgátur um hvað hefur gerst þar, en engin endanleg svör og maður fer alltaf þangað með þá von að þorskurinn sé mættur aftur í Kantinn.“
Sem fyrr segir tóku sex netabátar þátt í verkefninu að þessu sinni. Þeir eru Magnús SH, Saxhamar SH, Þórsnes SH, Friðrik Sigurðsson ÁR, Sigurður Ólafsson SF og Hafborg EA. Lögð voru net á um 300 stöðvum allt í kringum landið, nema við Vestfirði og Austfirði.