Heimsins hollasta álegg í 110 ár segir í frétt norska síldarsamlagsins þar sem greint er frá merkisafmæli hjá King Oscar sem framleiðir niðurlagðar sardínur í dós.

Norska fyrirtækið King Oscar var stofnað árið 1902. King Oscar-sardínur voru fyrst seldar í Bandaríkjun árið 1903 og þeirra tímamóta er minnst nú. Sardínurnar hafa notið mikilla vinsælda síðan. Nú, 110 árum seinna, er þessa vöru að finna í 80% af öllum matvælaverslunum í Bandaríkjunum. King Oscar var einnig útnefnt sem eitt af 10 bestu vörumerkjum sjávarafurða í ár samkvæmt blaðinu Seafood Executive.

Norska síldarsamlagið þakkar vinsældir King Oscar-sardínanna meðal annars því að þær séu framleiddar úr brislingi sem veiddur er í Sognfirði og víðar í Noregi.