Áætlað er að heildarveiðar í heiminum á hvítfiski verði 6,76 milljónir tonna á næsta ári sem er 2,7% aukning frá yfirstandandi ári eða 190.000 tonn. Þetta kom fram á árlegum fundi Groundfish Forum sem haldinn var í Barcelona í síðustu viku, en aðild að þessum samtökum eiga  fulltrúar stærstu fyrirtækjanna í sölu á botnfiski.

Framboð á alaskaufsa, sem er langstærsta hvítfisktegundin, er talið verða svipað á næsta ári og í ár eða rétt tæplega 3 milljónir tonna. Áætlað er að veidd verði 1,1 milljón tonna af atlantshafsþorski sem er 4% aukning milli ára. Gert er ráð fyrir að framboð á kyrrahafsþorski verði 425.000 tonn sem einnig er 4% aukning. Jafnframt er búist við aukningu í veiðum á ýsu, lýsingi og hokinhala.

Af helstu hvítfisktegundunum er aðeins reiknað með samdrætti í ufsa.

Um helstu eldistegundir er það að segja að búist er við 2,85 tonna framleiðslu á tilapíu sem er 3% aukning milli ára. Framleiðsla á catfish og pangasíus er áætluð 1,45 milljónir tonna sem er lítilsháttar samdráttur frá árinu í ár og stafar af minni framleiðslu í Víetnam.

Framleiðsla á Atlantshafslaxi er talin munu aukast úr 1,6 milljónum tonna í 1,7 milljónir.