Víetnamski fiskframleiðandinn Pham Thi Dieu Hien hefur tekið í notkun nýja verksmiðju til að framleiða nýstárlega vöru úr eldisfiskinum pangasius. Afurðin er prótín heilsudrykkur sem unninn er úr afskurði frá flakavinnslu á pangasius, að því er fram kemur á vef SeafoodSource.
Nýja verksmiðjan, sem hóf framleiðslu í endaðan maí síðastliðinn, var formlega tekin í notkun í lok júní. Tveir drykkir með ávaxtabragði eru framleiddir til að byrja með og boðnir í eins lítra áldósum. Drykkirnir eru þegar komnir í sölu í stórmörkuðum í Víetnam. Þar eru þeir seldir á 0,6 dollara, eða 70 krónur íslenskar.
Gert er ráð fyrir að drykkirnir verði fluttir út til Kína og Japans þar sem prótín heilsudrykkir eru afar vinsælir.