Nýtt kvótaár er gengið í garð. Að þessu sinni er úthlutað 381.431 tonni í þorskígildum talið samanborið við um 348.553 þorskígildistonn á sama tíma í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð , að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Athygli vekur að upphafsúthlutunin í fyrra reiknuð í þorskígildum þess fiskveiðiárs var rúm 318 þúsund tonn. Hækkun í þorskígildistonnum milli ára stafar því að verulegum hluta af breytingum á þorskígildisstuðlunum, einkum vegna verðfalls á þorski, en einnig er um auknar aflaheimildir að ræða. Þannig hækkar úthlutun í þorski um 14 þúsund tonn og nemur hún rúmu 171 þúsund tonni. Úthlutun í gullkarfa fer í rúm 50 þúsund tonn og hækkar um 6 þúsund tonn og úthlutun í ufsa hækkar um 3 þúsund tonn. Þá er upphafsúthlutun í síld um 16 þúsund tonnum hærri en í fyrra, eða 79 þúsund tonn.

Úthlutun Fiskistofu á aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir.