Úthafskarfakvótinn verður áfram skorinn niður á næsta ári og hlutur Íslands í kvótanum lækkar úr 11.790 tonnum í ár niður í um 9.900 tonn á næsta ári, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Rússar standa utan þessa samkomulags en þeir veiða um 29 þúsund tonn af úthafskarfa árlega.

Fundur strandríkjanna Íslands, Grænlands og Færeyja auk Noregs, Rússlands og ESB um úthafskarfaveiðar næsta árs og stjórnun þeirra fór fram í London í lok september.

Á fundinum var kynnt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um veiðarnar, en hún er svipuð og á síðasta ári. Lagt er til að engar beinar veiðar verði úr efri stofni og hámarksafli úr neðri stofni verði 20 þúsund tonn.

Samkvæmt samkomulagi strandríkjanna, Íslands, Grænlands og Færeyja, auk ESB og Noregs fyrr á þessu ári, sem tekur til áranna 2011-2014, á heildaraflamark ársins 2012 að vera 32 þúsund, tonn sem er 6 þúsund tonna minni kvóti í heild en á árinu 2011. Ísland fengi um 31% af heildarkvótanum eða um 9.926 tonn á næsta ári. Þess má geta að úthlutaður kvóti í úthafskarfa til íslenskra skipa í ár var um 11.790 tonn.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.