Frá þessu er skýrt á vef Skagafjarðarhafna . Þar kemur einnig fram að afla þessum er að mestu leyti landað á Sauðárkróki, eða 20.431 tonn á árinu 2017 en á Hofsósi var landað 689 tonnum.
Í þessum aflatölum munar mest um tvö skip, Málmey SK-1 og Klakk SK-5, sem bæði eru gerð út af FISK Seafood á Sauðárkróki.
Málmey landaði 6.500 tonnum á Sauðárkróki árið 2017 og Klakkur 4.500 tonnum. Samtals voru þessi tvö skip með ríflega helminginn af öllum þeim afla sem landað var þar á síðasta ári.
Málmey er stærra skipið, 30 ára gamalt og 1.470 brúttótonn, en Klakkur er fertugur og 745 brúttótonn að þyngd.
Nýr og byltingarkenndur kælibúnaður var settur í Málmey fyrir fáeinum misserum og á síðasta ári fékk FISK Seafood nýtt 2.000 tonna skip með sams konar ofurkælibúnaði, Drangey SK-2, sem smíðað var í Tyrklandi.
Málmey og Klakkur eru einu botnvörpuskipin sem landað hafa á Sauðárkróki á síðasta ári, en línuveiðar skiluðu næstmestum afla þar, alls 4.358 tonnum úr samtals sex bátum á árinu 2017.
Þá var 3.800 tonnum af rækju, veiddri á alþjóðlegu hafsvæði, landað á árinu 2017.