Íslenska hátæknifyrirtækið Hefring Marine hlaut í dag Hvatningarverðlaun TM og Sjávarútvegsráðstefnunnar fyrir hönnun og smíði snjallsiglingatækja sem aðstoða skipstjórnendur að stýra sjóförum á sem öruggastan og hagkvæmastan hátt. Hvatningarverðlaununum fylgir verðlaunagripurinn Svifaldan eftir listamanninn Jónas Braga Jónasson. Verðlaunin voru veitt á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu sem stendur yfir í dag og á morgun.
Alls voru þrjú fyrirtæki tilnefnd til verðlaunanna, þ.e. Hefring Marine, Alda Öryggi og Greenfish.
Hefring Marine hannar og smíðar snjallsiglingatæki sem safnar gögnum í rauntíma um öldulag, hreyfingar báts, frá vél og öðrum búnaði um borð meðan á siglingu stendur og reiknar út birtir leiðbeinandi siglingahraða til skipstjóra með tilliti til öryggis. Með því að fylgja leiðbeinandi siglingahraða getur skipstjóri dregið verulega úr líkum á slysum sem og viðhaldskostnaði sem getur hlotist af ölduhöggum sem valda álagi á bát og búnað, dregið úr eldsneytiskostnaði og minnkað kolefnisspor með bestun á siglingahraða.
Dæmi um aðila sem nú nota Hefring Marine er Landsbjörg, Landhelgisgæslan, norskar og sænskar björgunarsveitir og ítalska strandgæslan. Hefring Marine tryggði sér fyrr á þessu ári 2,2 milljóna evra fjármögnun.
Methúsalem Hilmarsson hjá vátryggingaþjónustu TM afhenti verðlaunin. Hann sagði markmið þeirra að hvetja ung fyrirtæki og frumkvöðla til dáða og stuðla að nýbreytni. Að vekja athygli almennings á gildi nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Við mat á tilnefningum er tekið tillit til sjálfbærni, frumleika og ímynd íslensks sjávarútvegs. Dómnefnd var skipuð aðilum frá sjávarútvegsfyrirtækjum, tæknifyrirtækjum, markaðsfyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum, rannsóknarstofnunum og þjónustuaðilum í sjávarútvegi.