Íslenska hátæknifyrirtækið Hefring Marine hlaut í dag Hvatningarverðlaun TM og Sjávarútvegsráðstefnunnar fyrir hönnun og smíði snjallsiglingatækja sem aðstoða skipstjórnendur að stýra sjóförum á sem öruggastan og hagkvæmastan hátt. Hvatningarverðlaununum fylgir verðlaunagripurinn Svifaldan eftir listamanninn Jónas Braga Jónasson. Verðlaunin voru veitt á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu sem stendur yfir í dag og á morgun.

Alls voru þrjú fyrirtæki tilnefnd til verðlaunanna, þ.e. Hefring Marine, Alda Öryggi og Greenfish.

Hefring Marine hannar og smíðar snjallsiglingatæki sem safnar gögnum í rauntíma um öldulag, hreyfingar báts, frá vél og öðrum búnaði um borð meðan á siglingu stendur og reiknar út birtir leiðbeinandi siglingahraða til skipstjóra með tilliti til öryggis. Með því að fylgja leiðbeinandi siglingahraða getur skipstjóri dregið verulega úr líkum á slysum sem og viðhaldskostnaði sem getur hlotist af ölduhöggum sem valda álagi á bát og búnað, dregið úr eldsneytiskostnaði og minnkað kolefnisspor með bestun á siglingahraða.

Dæmi um aðila sem nú nota Hefring Marine er Landsbjörg, Landhelgisgæslan, norskar og sænskar björgunarsveitir og ítalska strandgæslan. Hefr­ing Mar­ine tryggði sér fyrr á þessu ári 2,2 millj­óna evra fjár­mögn­un.

Methúsalem Hilmarsson hjá vátryggingaþjónustu TM afhenti verðlaunin. Hann sagði markmið þeirra að hvetja ung fyrirtæki og frumkvöðla til dáða og stuðla að nýbreytni. Að vekja athygli almennings á gildi nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Við mat á tilnefningum er tekið tillit til sjálfbærni, frumleika og ímynd íslensks sjávarútvegs. Dómnefnd var skipuð aðilum frá sjávarútvegsfyrirtækjum, tæknifyrirtækjum, markaðsfyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum, rannsóknarstofnunum og þjónustuaðilum í sjávarútvegi.