HB Grandi hefur selt Engey RE 1 til Murmansk Trawl Fleet í Rússlandi og verður hún afhent nýjum eigendum fyrri hluta júní mánaðar. Í tengslum við þessa sölu verður ísfisktogarinn Helga María AK 16, tekin aftur í rekstur, en henni var lagt í febrúar síðastliðnum.

Skipverjum í áhöfn Engeyjar verður boðið pláss á öðrum skipum félagsins. Engey er ferskfisktogari sem var smíðaður í Tyrklandi 2017 og hefur verið gerð út af HB Granda frá því skipið kom til landsins.

Stutt er síðan að HB Grandi greindi frá því að fyrirtækið hefði skrifað undir samning um leigu á Helgu Maríu, ásamt 11 manna áhöfn, til Grønlands Naturinstitut. Þar verður skipið við hafrannsóknir á hafsvæðinu við Grænland í 3 mánuði í sumar. Áætlað var þá að Helga María héldi frá Reykjavík til Nuuk á Grænlandi 10. júní, og að skipstjóri yrði Heimir Guðbjörnsson.

Fiskifréttir hafa ekki upplýsingar um hvort breytingar verða gerðar varðandi þetta verkefni.

Uppfært: Fiskifréttum hefur borist árétting um að Helga María AK verður eins og samið hefur verið um við hafrannsóknir í þrjá mánuði eða til ágústloka og mun þá hefja veiðar á þeim afla sem Engey RE hefði annars veitt og borið að landi.