Fjórum starfsmönnum fiskimjölsverksmiðju HB Granda var sagt upp í gær. Fyrr í dag bárust fregnir af því að ellefu starfsmönnum Granda hf. í frystihúsi félagsins á Vopnafirði var sagt upp störfum í dag.
Upplýsingarnar um uppsagnir á Vopnafirði birti AFl Starfsgreinafélag í dag. Þar segir jafnframt: „Áður hafði þremur starfsmönnum verið sagt upp og loks eru tveir starfsmenn að hætta af öðrum ástæðum og verður ekki ráðið í stað þeirra. Fækkun starfa á Vopnafirði eru því 16 störf á stuttum tíma sem myndi jafngilda því að um 5.600 störf hefðu glatast á höfuðborgarsvæðinu.“
Samkvæmt því sem AFL kemst næst eru flestir þeirra sem sagt var upp, af erlendum uppruna og búsettir á Bakkafirði en þar hefur allri fiskvinnslu verið hætt og íbúar hafa sótt vinnu til Vopnafjarðar. Ennfremur herma fréttir að frekari uppbyggingu frystihússins á Vopnafirði sé hætt, segir í frétt AFls
Af þessu flutti Austurfrétt fyrst fréttir og talaði við framkvæmdastjóra Afls.
Í samtali við Austurfrétt segir Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs HB Granda, að bolfiskvinnslu á Vopnafirði í núverandi mynd yrði hætt.
Aðspurður um ástæður ákvörðunarinnar sagði Garðar að verið væri að endurskoða starfsemi fyrirtækisins. Engin ákvörðun hefði verið tekin um tæki eða húsnæði bolfiskvinnslunnar.
Hann sagði ennfremur að verið væri að skoða önnur verkefni sem hægt væri að vinna á Vopnafirði á milli vertíða í uppsjávarfiski. Þeirri starfsemi verður haldið áfram.
Bolfiskvinnslan var tekin í gagnið fyrir síðustu áramót og var meðal annars ætlað að minnka árstíðabundna sveiflu í starfseminni á Vopnafirði. Þá um veturinn sagði Magnús Róbertsson, vinnslustjóri, að bolfiskvinnslan hefði bjargað atvinnulífinu á staðnum.