Skip HB Granda og Brims eru með rúmlega 60% af veiðireynslu í gulllaxi síðastliðin þrjú ár, að því er fram kemur í úttekt í nýjustu Fiskifréttum. Gulllax er ein af þremur nýjum tegundum sem verða kvótasettar á næsta fiskveiðiári. Kvótinn miðast við veiðireynslu síðustu þrjú fiskveiðiár.

Á viðmiðunartímabilinu, frá 16. ágúst 2010 til 15. ágúst 2013, voru veidd 31.879 tonn af gulllaxi eða um 10.600 tonn að meðaltali á fiskveiðiári. Kvótinn verður hins vegar 8.000 tonn á næsta fiskveiðiári.

Skip HB Granda eru samanlagt með mesta aflareynslu. Þau hafa veitt 10.320 tonn af gulllaxi á tímabilinu sem er rúm 32% af heildinni. Brim er í öðru sæti með rúm 30% af veiðireynslu í gulllaxi. Tvö félög eru þannig með yfir 60% veiðireynslunnar og fá væntanlega kvóta í samræmi við það.

Brimnes RE er það skip sem er með langmesta veiðireynslu í gulllaxi. Skipið veiddi 6.857 tonn á tímabilinu eða um 2.285 tonn að meðaltala á fiskveiðiári. Þetta eina skip er með 21,5% af heildarveiðinni í gulllaxi.

Sjá nánar úttekt í nýjustu Fiskifréttum.